Ökuleikni BMW og B&L
13. apríl 2002

Það er ekki hægt að neita því að maður var svolítið spenntur að fara í ökuleikni BMW og B&L og læra (aftur) að keyra hjá finnska aksturskappanum Rauno Aaltonen. Þegar ég lagði af stað upp í B&L snjóaði mikið og þessum líka fína jólasnjó og það minnkaði ekki tilhlökkunina að fá að reyna vel á bílana við erfiðar aðstæður. Það stytti reyndar upp áður en gamanið byrjaði en það sakaði alls ekki því þetta reyndist mjög skemmtilegt og fræðandi og alveg laust við að vera endilega neitt sérstaklega auðvelt.

Um tvöleitið byrjaði fólk að smalast saman hjá B&L við Grjótháls og þar biðu okkar kökur og kaffi á meðan við komum okkur fyrir í sætunum. Eftir kynningu byrjaði Rauno að kenna grundvallaratriði eins og hvernig á að halda um stýrið, fjarlægð í það og síðast en ekki síst hvernig á að teikna BMW merkið (hint: Blue, Middle, White). :-)

Rauno lýsti vel bæði í orði og verki og var óspar á að láta okkur taka þátt í nokkrum tilraunum þar sem hann sýndi fram á ástæður þess að ekki á að keyra með stýrið of langt frá búknum heldur vera með það nær og hendur bognar. Meðal annars bíður það upp á mun sneggri hreyfingar og þar með meiri viðbragðsflýti og eins er gripið mun betra. Einnig fór Rauno aðeins yfir helstu krafta sem eru að verka á bíla og veggrip og hvaða áhrif búnaður eins og til dæmis stöðugleikastýringar og ABS bremsukerfi hefur. Fyrirlestur Rauno var mjög fróðlegur og skemmtilegur enda lét hann okkur taka mikið þátt með honum.

Þegar Rauno hafði lokið sínu voru bílarnir sem biðu okkar kynntir, þrír BMW 525i og þrír 318i, allir sjálfskiptir.

Nú lá leiðin upp á planið á bak við B&L þar sem var búið að koma fyrir keiluhringbraut. Við röðuðum okkur á bílana, 3-4 í bíl og fórum nokkra hringi og æfðum stýristökin sem Rauno hafði kennt okkur. Þarna gilti greinilega gamla málstækið að það er erfitt að kenna gömlu hundi að sitja og voru menn sammála um að báðar heilasellur þurftu að vera á fullu við að passa að halda rétt um stýrið og fara ekki í gamla farið.

Eftir að fara nokkra hringi þarna og kynnast aðeins bílunum og nýlærðum aðferðum við að stýra lá leiðin niður í Grafarvoginn þar sem við stoppuðum í malarbrekku sem liggur niður að voginum.

Þarna var spólvörnin í bílunum kynnt og okkur sýnt hvernig hún virkar í mismunandi stillingum. Nýju 318i bílarnir hafa þrjár stillingar á spólvörninni á móti aðeins tveim stillingum áður. Í eðlilegri stillingu leyfir hún aðeins ca. 1-2% spólun, miðstillingin leyfir ca. 12% spól og svo er nýjasta stillingin þar sem alls engin spólvörn er í gangi. Þetta var okkur sýnt í malarbrekkuni þar sem munurinn er nokkuð greinilegur. Eins var okkur sýnt hvað munar miklu hvort gefið sé allt í botn eða farið örlítið af stað áður en allt er gefið í botn.

Nú lá leiðin aftur upp á Höfða þar sem beið okkar malbikaður vegur með nokkuð nettri vinstri beygju þar sem búið var að koma fyrir þröngum "keilugöngum" í beygjunni. Verkefnið var að fara á fullri ferð að keilugöngunum og snarbremsa og beygja á sama tíma og halda sig um leið innan keilanna. Þetta reyndist nokkuð erfiðara en það leit út í fyrstu enda vantaði svosem ekki kraftinn í bílana og þeir komnir á góða ferð þegar kom að keilunum. Þarna fundum við vel fyrir stöðugleikastýringunni ásamt ABS kerfinu og áttum að nota það til fullnustu. Nokkrar keilur fengu að finna fyrir bílunum og undirvagni þeirra enda var það tilgangurinn að við fengjum að finna hvernig búnaðurinn virkar og hvernig það er að stýra bílnum við fulla hemlun á mikilli ferð.

Næsta braut fólst í því að beygja framhjá keiluvegg í miðri beygju þannig að úr varð nokkuð krefjandi s-beygja. Þetta var ekki aðeins flóknari keiluuppsetning heldur var aðkeyrslan lengri og þar að auki niður í móti. Þetta gekk samt ágætlega og mjög gott að finna hvað bíllinn lá vel í kröppum beygjunum. Það má kannski líkja þessari þraut við það að eitthvað stökkvi fyrir bílinn hjá manni og maður þarf að beygja framhjá og um leið halda sig á veginum.

Meðan við vorum þarna heimsótti okkur nýji Mini Cooperinn og vakti mikla athygli enda mjög fallegur bíll og alveg einstakt hvað BMW hefur tekist að sparka Mini svona í nútímann og halda samt áfram í gamla Mini sjarmann. Mjög sérstakur bíll á alla kanta, framúrstefnulegt útlit og innréttingin mjög sérstök en alveg án þess að fara út í einhverja vitleysu. Eftir að keyra s-beygjuna nokkrum sinnum með mismunandi breiðum keiluvegg og skoða Mini Copperinn vandlega í hólf og gólf lá leiðin á planið hjá Mjólkursamsölunni.

Á planinu sem var búið að bleyta var búið að raða keilum í hring. Þarna var ætlunin að finna hvernig stöðugleikastýringin virkar og finna muninn þegar slökkt væri á henni. Enn og aftur var þarna mjög merkilegt að finna hvernig bíllinn hegðar sér við mismunandi aðstæður og áberandi munur eftir því hvort stöðugleikastýringin var á eða ekki.

Eftir planið hjá Mjólkursamsölunni var svo farið aftur á bílastæðið á bak við B&L þar sem við fórum nokkra hringi aftur en nú reynslunni ríkari og fórum aðeins greiðar enda mun öruggari eftir fyrri æfingar og farin að venjast bílunum betur.

Þar endaði svo leiðbeinandinn á að fara nokkra hringi á Mini Coopernum og það má segja að það hafi vælt í dekkjunum svotil allan hringinn og ég er ekki frá því að aðeins hafi líka vælt í eigandanum.

Loks var svo farið aftur inn og við fengum smá bakkelsi og með því meðan málin voru rædd. Rauno var meðal annars spurður hvernig þessir hlutir sem við fórum í útfærðust á beinskiptum bílum. Því fylgdi ágætis lýsing á "double-clutching" og "toe-and-heel" tækni sem verður kannski viðfangsefnið á næsta námskeiði, aldrei að vita.

Í lokin vil ég svo þakka B&L og BMW kærlega fyrir að bjóða upp á þetta námskeið. Þetta var mjög skemmtilegt, áhugavert og umfram allt fræðandi. Það er vonandi að svona námskeið verði haldin aftur og þau ættu að vera yfirvöldum hvatning til að koma upp góðri æfingaaðstöðu fyrir bæði nýja og verðandi bílstjóra og eins þá sem vilja rifja upp og æfa sig.

IAR