Framljós fjarlægt úr BMW E36 '96

Verkfærin í þessa "aðgerð" eru svosem ekki af flóknari endanum, þessi á myndinni dugðu mér vel. :-)

Fyrst er gott að merkja á veggnum fyrir framan bílinn hvar ljósgeislinn lendir, t.d. með blýanti eða límbandi. Þetta auðveldar stillingu á ljósinu eftir ísetningu.
Áður en ljósið er tekið út þarf að taka stefnuljósið í burt. Vinstra megin segir sagan að best sé að losa líka loftsíuboxið til að komast betur að. Þar sem ég þurfti bara að losa hægra ljósið get ég ekki staðfest þetta.
Til að losa stefnuljósið þarf að ýta við smá flipa á ljósinu sjálfu sem heldur því föstu. Þetta er best að gera með skrúfjárni sem er stungið niður beint fyrir ofan ljósið og flipanum ýtt til hliðar á meðan ljósið er dregið beint fram úr bílnum og tengingin losuð. Myndin hér fyrir neðan sýnir flipann sem þarf að ýta til.

Næst er að losa hlífa yfir vatnskassanum. Til þess þarf að losa fjórar skrúfur og mjaka hlífinni svo aðeins til hliðar. Í þessu tilfelli þurfti ekki að taka hlífina alveg frá heldur dugði að hliðra henni aðeins. Á fyrri myndinni sést hvar skrúfurnar eru staðsettar og á þeirri seinni er búið að losa hlífina og færa til hliðar.

Nú þarf að losa skrúfurnar fyrir ofan ljósið, best er að halda við stilliróna á bak við svo ljósið skekkist sem minnst þegar það fer aftur í.

Þá þarf að losa tvær skrúfur bakvið á hliðunum á ljósunum. Merkt á myndunum hér fyrir neðan.

Nú er ljósið laust og hægt að losa tengingarnar og draga ljósið alla leið út.

Þegar ljósið er komið í þarf að passa stillingarnar og bilið á milli neðri hluta ljóssins og stuðarans. Bilið á að vera ca. 2.5mm, og best að miða við svipað bil og á hinu ljósinu. Tvær stilliskrúfur eru líka aftan á ljósinu sem er hægt að nota til að stilla ljósið aðeins til og miða þá við merkingarnar á veggnum fyrir framan bílinn.


Ingimar Róbertsson